01 март 2012

Gleðilega Baba Marta, Честита Баба Марта!


Það er sérstakur siður í Búlgaríu að vinir gefa hverjum öðrum Martenitsa 1. mars til þess að óska þeim heilbrigðis og hamingju með kveðjunni „Tsjestita Baba Marta“ („Честита Баба Марта“, „Gleðilega Baba Marta“) og þekkist hvergi í heiminum nema í Búlgaríu. Martenitsa er hvítir og rauðir dúskar úr garni og oft útbúnir eins og karl og kona.

Menn bera þessa dúska í barminum þangað til þeir skynja að vorið sé komið, t.d. þegar laukblómin í skóginum fara að blómstra eða sjá fyrsta farfuglinn, sem oftast er storkurinn, og hengja þá Martenitsa upp í tré. Þá eiga óskirnar um heilbrigði og hamingju að rætast.

Þessi siður er upprunninn frá tímum Þrakverja sem settust að í Búlgaríu á 7. öld f. Kr. Menn trúðu því að Baba (amma) Marta kæmi 1.mars. Baba Marta var tákn mars-mánaðar og skipti hún oft skapi, stundum var hún glöð, skyndilega varð hún reið og varð svo aftur glöð. Þetta átti við um veðrið.

Það var þýðingarmikið að hafa Baba Marta í góðu skapi, því að þá myndi uppskera bændanna verða góð og landsmenn myndu eiga heillaríkt ár.

Margrét Sigþórsdóttir (1930-2007)