07 декември 2007

Rússneskur biskupsstafur að gjöf á degi heilags Nikulásar

Prestur rússnesku réttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi, Timur Zolotutskyi, færði biskupi Íslands, Karli Sigurbjörnssyni, að gjöf biskupsstaf við sameiginlega helgistund í Dómkirkjunni á Nikulásarmessu 6. desember síðastliðinn. Með gjöfinni vildi rússneska rétttrúnaðarkirkjan votta biskupi og Þjóðkirkjunni þakklæti sitt fyrir stuðning við starfsemi safnaðarins á Íslandi.
Við athöfnina í Dómkirkjunni fluttu Voces Thules söngva úr Nikulástíðum frá 14. öld auk þess sem lesið var úr Nikulássögu og sungin helgitónlist rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar.
Biskupsstafurinn er svonefndur té-bagall, eins og biskupar Austurkirkjunnar nota. Slíkur bagall frá 11. öld fannst á Þingvöllum fyrir fimmtíu árum. Er hann staðfesting þess að við upphaf kristni á Íslandi hafi verið hér á landi biskupar frá Austurkirkjunni.
Þess má geta að heilagur Nikulás hefur löngum notið mikillar helgi í rétttrúnaðarkirkjunni. Svo var einnig á Íslandi á fyrstu öldum kristni í landinu og voru margar íslenskar kirkjur helgaðar þessum verndardýrlingi barna, kaupmanna, sæfarenda og veðlánara. Heilagur Nikulás er eins og kunnugt er fyrirmynd jólasveinsins í mörgum löndum.

Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, 7.12.2007